ORÐSENDING TIL KENNARA OG SKÓLASTJÓRNENDA
Fjármálaráðuneytið, Landskrifstofa eTwinning, og SAFT verkefnið auglýsa tilraunaverkefni og undirbúningsverkefni um notkun rafrænna skilríkja í samskiptum barna og unglinga á netinu. Notkun rafrænna skilríkja er ætlað að auka öryggi barna og ungmenna á netinu.
Leitað er að þátttakendum - kennurum og nemendum - til að taka þátt, tvo grunnskóla og tvo framhaldsskóla. Þeir sem hafa áhuga geta skráð sig á þessari slóð: www.ask.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/1/wa/dp?id=1027086&wosid=qEGtVWLJytJCQbtHnxMcew
Skráningarfrestur er til og með 25. október nk.
Hér er stutt kynning á verkefninu:
INNGANGUR
Rafræn skilríki geta verið á ólíkum miðlum og notuð í ýmsum tilgangi (sjá nánar skilriki.is). Á Íslandi hafa rafræn skilríki verið notuð undanfarin ár í ýmsum verkefnum. Ríki, bankar og sparisjóðir hafa unnið að skipulagi fyrir almenna útbreiðslu rafrænna skilríkja á Íslandi og er nú hafin útgáfa rafrænna skilríkja á debetkortum og kortum án bankavirkni.
Þrátt fyrir að ýmis lönd hafi tekið í notkun rafræn skilríki hefur almennt ekki verið hægt að nota þau í samskiptum á milli landa. Evrópusambandið styrkir nú tilraunaverkefnið STORK (Secure Identity Across Borders Linked) þar sem markmiðið er að samræma auðkenningu milli Evrópulanda, þ.á.m. rafræn skilríki. Þetta er gert með hönnun kerfis sem gerir þjóðum kleift að lesa og treysta skilríkjum annarra landa. Þátttökulönd vinna nú að sameiginlegri lausn sem styðst við opna staðla og hugbúnað.
Fjármálaráðuneytið, Landskrifstofa eTwinning og SAFT eru aðilar að STORK og munu leiða tilraunaverkefni um þróun og prófun á viðmóti fyrir örugg samskipti á milli barna og unglinga á netinu á milli landa. Áður en sjálft tilraunaverkefnið fer í gang verður sett af stað minna undirbúningsverkefni innanlands.
Leitað er að skólum, kennurum og nemendum til þátttöku bæði í tilraunaverkefninu og undirbúningsverkefninu.
TILRAUNAVERKEFNIÐ 2010-2011
Ætlunin er að fá nemendur og kennara í mismunandi Evrópulöndum til þess að prófa notkun rafrænna skilríkja þegar farið er inn á svæði á netinu. Rafrænu skilríkin eru kort sem hver þátttakandi fær. Tveir skólar frá sitt hvoru landinu munu vinna saman að verkefni tengdu netöryggi, sem viðkomandi kennarar koma sér saman um (þ.e. kennararnir fá uppkast að verkefni frá skipuleggjendum sem útgangspunkt, en stýra að öðru leyti innihaldi þess). Í þeim skólum sem taka þátt gæti verkefnið átt vel við lífsleikni og/eða upplýsingatækni (sem dæmi).
Nemendur og kennarar myndu hvort tveggja fræðast og fjalla um netöryggi og reyna á hagnýtan hátt að nota öryggisbúnað eins og rafræn skilríki. Aldur þeirra nemenda sem taka þátt er annars vegar 14 til 16 ára og hins vegar 16 til 18 ára. Ætlunin er að rafrænu skilríkin muni tryggja, að aðeins þeir sem eru á þessu aldursbili komist inn á vefsvæðið sem á að nota. Stefnt er að því að nota Moodle-viðmót, þar sem nemendur geta spjallað og unnið að verkefnum tengdum netöryggi. Upplýsingar um Moodle: http://moodle.org/ og http://is.wikipedia.org/wiki/Moodle
Sjálft tilraunaverkefnið mun fara í gang á vormisseri 2010 (nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir) og vara í eitt ár.
UNDIRBÚNINGSVERKEFNI Í NÓVEMBER 2009 og SAFT samkeppni
Undirbúningsverkefni fer af stað í nóvember 2009, en þar verða prófuð samskipti innlendra skóla með rafrænum skilríkjum í gegnum Moodle.
Varðandi undirbúningsverkefnið er sérstök athygli vakin á því að frá október 2009 og fram í febrúar 2010 mun SAFT og ungmennaráð SAFT standa fyrir samkeppni um gerð jafningjafræðslunefnis í öllum grunn- og framhalsskólum landsins í samstarfi við Nýherja. Bæði einstaklingum og bekkjum er boðin þátttaka um gerð jafningjafræðsluefnis, þ.e. myndbönd, teiknimyndir, kennslueiningar, veggspjöld, handrit af leiknu efni, leiki osfrv.
Gert er ráð fyrir að öllu efni verði skilað inn og vinningshafar kynntir á alþjóðlega netöryggisdeginum í febrúar 2010. Þann dag er ráðgert að SAFT standi fyrir árlegri ráðstefnu, en þema þeirra Evrópuþjóða sem starfa undir netöryggisáætlun EC, er „Think before you post“ – þar sem áhersla er lögð á að brýna fyrir ungum netnotendum að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja upplýsingar eða myndir á netið.
Meðal verðlauna fyrir vinningstillögur má nefna fartölvur, stafrænar myndavélar og flakkara.
Reiknað er með að í undirbúningsverkefninu muni nemendur geta unnið að jafningjafræðsluefni fyrir samkeppni SAFT.
You need to be a member of Upplýsingatækni og miðlun í menntun to add comments!
Join Upplýsingatækni og miðlun í menntun